Tvö rauð á Chelsea sem vann í vítakeppni

Alvaro Morata fær rautt spjald í uppbótartíma í kvöld.
Alvaro Morata fær rautt spjald í uppbótartíma í kvöld. AFP

Englandsmeistarar Chelsea í knattspyrnu urðu að vinna fyrir hlutunum þegar liðið tók á móti B-deildarliði Norwich í öðrum leik liðanna í enska FA-bikarnum. Vítaspyrnukeppni þurfti til þess að útkljá viðureignina.

Liðin skildu jöfn í fyrri leiknum í 3. umferð keppninnar eftir markalaust jafntefli og því þurftu þau að mætast á ný til þess að útkljá einvígið. Michy Batshuayi virtist vera að skora sigurmark Chelsea á 55. mínútu en á fjórðu mínútu uppbótartíma jafnaði Jamal Lewis metin og tryggði framlengingu.

Í framlengingunni var ekkert skorað en Pedro í liði Chelsea fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar fimm mínútur voru eftir af framlengingu. Alvaro Morata fór svo sömu leið eftir tvö gul spjöld í lokin, það fyrra fyrir leikaraskap og það síðara fyrir kjaftbrúk.

Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Þar var Willy Caballero í marki Chelsea hetjan því hann varði fyrstu spyrnu Norwich á meðan liðsfélagar hans nýttu allar sínar og tryggðu sér sigurinn.

Í öðrum leikjum kvöldsins vann Swansea lið Wolves 2:1 og komst áfram eins og Wigan sem sló út úrvalsdeildarlið Bournemouth 3:0.

Chelsea mætir Newcastle í úrvalsdeildarslag í næstu umferð, Swansea mætir Notts County og Wigan mætir West Ham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert