Carrick í þjálfarateymi United í sumar

Michael Carrick.
Michael Carrick. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United skýrði frá því í kvöld að Michael Carrick, fyrrverandi landsliðsmaður Englands, myndi leggja skóna á hilluna í vor og koma inn í þjálfarateymi félagsins.

Carrick er 36 ára gamall og hefur aðeins náð að spila einn leik í vetur en er farinn að æfa af krafti með liðinu og gerir það til vorsins. Hann skýrði frá því fyrir skömmu að í nóvember hefði hann greinst með óreglulegan hjartslátt en búið væri að kippa því í liðinn.

„Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og ég tel að þetta sé góð ákvörðun hjá honum, að hætta í vor án þess að vera neyddur til þess vegna meiðsla eða annarra vandræða. Ég geri ráð fyrir honum í þjálfarateymið í sumar, nema hann skipti um skoðun," sagði Mourinho við Sky Sports en hann hafði áður sagt að hann vildi fá Carrick sem þjálfara þegar hann myndi hætta að spila.

Carrick var í röðum West Ham frá 16 ára aldri og þar til hann var 23 ára og spilaði 136 deildaleiki fyrir Lundúnaliðið. Hann fór þaðan til Tottenham og lék þar í tvö ár, 2004-2006, en Manchester United keypti hann fyrir 14 milljónir punda sumarið 2006. Hann lýkur í vor sínu tólfta tímabili með félaginu og hefur spilað 314 leiki fyrir það í úrvalsdeildinni. Carrick hefur fimm sinnum orðið enskur meistari með United, einu sinni Evrópumeistari og einu sinni bikarmeistari, ásamt því að vinna Evrópudeildina með liðinu síðasta vetur og heimsbikar félagsliða árið 2008.

Carrick á að baki 34 landsleiki fyrir Englands hönd, síðast lék hann landsleik árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert