Chelsea splundraði Brighton-vörninni

Eden Hazard fagnar marki sínu í dag. Willian fagnar með …
Eden Hazard fagnar marki sínu í dag. Willian fagnar með honum en hann skoraði annað mark Chelsea. AFP

Leikmenn Chelsea léku á als oddi gegn Brighton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem lokatölur urðu 4:0, gestunum frá Lundúnum í vil. 

Eden Hazard og Willian voru í miklu stuði fyrir Chelsea. Sá fyrrnefndi kom liðinu yfir strax á 3. mínútu eftir sendingu frá Victor Moses, 1:0.

Aðeins þremur mínútum síðar bætti Willian við öðru marki Chelsea en markið kom eftir stórglæsilegt samspil hans við Eden Hazard og Michy Batshuay sem með stuttu spili og þríhyrningi splundruðu vörn Brighton.

Brighton-liðið var aftur á móti nokkuð öflugt í leiknum og vildu leikmenn þess, að því er virtist réttilega, fá dæmda vítaspyrnu á 35. mínútu er Tiemoue Bakayoko braut á Ezequiel Schelotto innan teigs. Ekkert var hins vegar dæmt. Skömmu síðar skallaði Tommer Hemed af stuttu færi á mark Chelsea en Wilfredo Caballero varði frábærlega en hann stóð í markinu hjá Chelsea vegna ökklameiðsla Thibaut Courtois.

Eden Hazard skoraði þriðja mark Chelsea á 77. mínútu og sitt áttunda mark í deildinni. Victor Moses rak svo síðasta naglann í kistu Brighton undir lok leiksins, 4:0 lokatölur.

Chelsea hefur 50 stig í 3. sæti en Brighton hefur 23 stig í 16. sæti og er þremur stigum frá fallsæti.

Brighton 0:4 Chelsea opna loka
90. mín. Leik lokið Frábær sigur Chelsea.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert