Jóhann skaut í slá en tapaði gegn United

Anthony Martial fagnar marki sínu ásamt Juan Mata í dag.
Anthony Martial fagnar marki sínu ásamt Juan Mata í dag. AFP

Manchester United vann afar mikilvægan sigur á Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í fjörugum leik á Turf Moor í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem lokatölur urðu 1:0. Jóhann Berg átti góðan leik og átti meðal annars aukaspyrnu í þverslána. Fimm aðrir leikir fóru fram á sama tíma.

Frábært skot Martial

Frakkinn Anthony Martial kom United-liðinu yfir á 54. mínútu með glæsilegri afgreiðslu er hann smellti boltanum í slá og inn eftir sendingu og undirbúning frá Romelu Lukaku. Martial hefur nú skorað í þremur leikjum í röð fyrir United.

United-maðurinn Juan Mata í baráttu við Phil Bardsley, Burnley, í ...
United-maðurinn Juan Mata í baráttu við Phil Bardsley, Burnley, í dag. Jóhann Berg fylgist grannt með AFP

Jóhann Berg átti fínan leik fyrir Burnley og átti meðal annars skot í þverslána úr aukaspyrnu á 57. mínútu. Hann var auk þess allt í öllu í föstum leikatriðum Burnley og einn af mest ógnandi leikmönnum liðsins í dag. Sótt var á báða bóga í síðari hálfleik en ekkert mark skorað. United hélt forskoti sínu og sigldi gríðarlega mikilvægum sigri í höfn. United hefur 53 stig í 2. sæti og er níu stigum á eftir Manchester City sem á leik til góða og mætir Newcastle á eftir. Burnley hefur nú leikið átta leiki í röð í öllum keppnum án þess að vinna.

Svekkjandi jafntefli hjá Gylfa og félögum

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn í 1:1 jafntefli Everton við WBA á Goodison Park. Jay Rodriguez kom gestunum úr WBA yfir á 7. mínútu og Everton jafnaði ekki metin fyrr en á 70. mínútu. Theo Walcott lék sinn fyrsta leik fyrir Everton í dag en það var varamaðurinn Oumar Niasse sem skoraði mark Everton. Everton hefur 28 stig í 9. sæti.

Það gengur lítið upp hjá Gylfa og félögum þessa dagana.
Það gengur lítið upp hjá Gylfa og félögum þessa dagana. AFP

Fjarvera Sánchez hafði engin áhrif

Það var enginn Alexis Sánchez í leikmannahópi Arsenal gegn Roy Hodgson og hans mönnum í Crystal Palace í dag. Arsenal-menn létu það þó ekki á sig fá, þvert á móti, enda var staðan orðin 3:0 eftir aðeins þrettán mínútna leik og Alexandre Lacazette kom liðinu í 4:0 á 22. mínútu. Nacho Monreal kom liðinu yfir á 6. mínútu, Alex Iwobi bætti öðru við á 10. og þremur mínútum síðar skoraði Laurent Koscielny. Palace hefur verið á góðu skriði frá því að Hodgson tók við liðinu á botni deildarinnar og hafði aðeins tapað einu sinni í síðustu 12 leikjum - en sá leikur var einmitt gegn Arsenal.

Alexandre Lacazette og félagar í Arsenal fóru létt með Crystal ...
Alexandre Lacazette og félagar í Arsenal fóru létt með Crystal Palace og sakna ekki Alexis Sánchez mikið. AFP

 Góð frumraun hjá Lambert

Paul Lambert stýrði Stoke í sínum fyrsta leik og tókst það ansi vel en lið hans vann Huddersfield 2:0. Mörkin skoruðu Joe Allen á 53. mínútu og Mame Biram Diouf á 69. mínútu. Fyrir leikinn í dag hafði Stoke tapað fjórum leikjum í röð.

Leicester vann 2:0 sigur á Watford þar sem tvíeykið Jamie Vardy og Riyad Mahrez skoruðu mörkin. Annar sigur Leicester í síðustu sex úrvalsdeildarleikjum. Þá skildu West Ham og Bournemouth jöfn, 1:1. Ryan Fraser og Javier Hernandez skoruðu mörkin með tveggja mínútna millibili í seinni hálfleik, á 71. og 73. mínútu.

Úrslit:

4:1 Arsenal - C. Palace (Monreal 6., Iwobi 10., Koscielni 13., Lacazette 20.; Luka Milivojevic 77.)
1:1 Everton - WBA (Niasse 69.; Rodriguez, 7.)
2:0 Leicester - Watford (Vardy 39. (víti), Mahrez, 90.)
2:0 Stoke - Huddersfield (Allen 53., M. B. Diouf 68.)
1:1 West Ham - Bournemouth (Hernandez 73.; Fraser 72.)

Burnley 0:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Lokatölur í leikjunum kl. 15: 4:1 Arsenal - C. Palace (Monreal 6., Iwobi 10., Koscielni 13., Lacazette 20.; Luka Milivojevic 77. ) 1:1 Everton - WBA (Niasse 69.; Rodriguez, 7.) 1:0 Leicester - Watford (Vardy 39. (víti), Mahez, 90.) 2:0 Stoke - Huddersfield (Allen 53., M. B. Diouf 68.) 1:1 West Ham - Bournemouth (Hernandez 73.; Fraser 72.)
mbl.is