Wenger segir Aubameyang ekki á leiðinni

Arsene Wenger á hliðarlínunni í dag.
Arsene Wenger á hliðarlínunni í dag. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var mjög ánægður með 4:1-sigur liðsins á Crystal Palace á heimavelli í dag. Arsenal komst í 4:0 á fyrstu 22 mínútum leiksins.

„Við spiluðum okkar leik í fyrri hálfleik. Við náðum miklum hraða í spilið okkar en seinni hálfleikurinn var erfiðari. Við erum fyrsta liðið til að vinna Palace í síðustu 12 leikjum.“

Alexandre Lacazette skoraði sitt fyrsta mark í langan tíma í dag og var Wenger ánægður með framherjann.

„Það var farið að bitna á Lacazette að ná ekki að skora og þetta er búið að vera erfitt fyrir hann. Það er mikill léttir að hann náði loks að koma boltanum í markið.“

Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Dortmund, hefur verið orðaður við Arsenal að undanförnu en Wenger vildi lítið tala um hann. Frakkinn segir hins vegar líklegt að Alexis Sánchez fari til Manchester United og Henrikh Mkhitaryan fari í hina áttina. 

„Það er ekkert að frétta af Aubameyang. Hann var ekki í hóp hjá Dortmund en það er ekki af því hann er að yfirgefa félagið. Sánchez yfirgefur okkur bara ef Mkhitaryan kemur hingað. Það kemur í ljós á næstu 48 klukkutímum,“ sagði Wenger. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert