Bruce notaði Birki sem sýnidæmi

Birkir Bjarnason virðist hafa nýtt tækifærið sitt vel í liði …
Birkir Bjarnason virðist hafa nýtt tækifærið sitt vel í liði Aston Villa í síðustu tveimur leikjum. Ljósmynd/avfc.co.uk

Stuðningsmenn Aston Villa sem og knattspyrnustjórinn Steve Bruce virðast ánægðir með frammistöðu Birkis Bjarnasonar í síðustu tveimur leikjum liðsins.

Birkir hefur sáralítið fengið að spila á leiktíðinni og sagði við mbl.is fyrir skömmu að ef ekkert breyttist væru meiri líkur en minni á að hann færi frá Villa nú í janúar. En hlutirnir hafa aðeins breyst, því Birkir þótti standa sig afar vel á miðjunni hjá Villa þær 45 mínútur sem hann spilaði í sigri á Nottingham Forest fyrir viku og hann átti einnig góðan leik á miðjunni í gær þegar hann spilaði 90 mínútur í 3:1-sigri á Barnsley. Það er aðeins þriðji deildarleikur Birkis á tímabilinu í byrjunarliði Villa.

Bruce fór yfir víðan völl á fréttamannafundi eftir sigurinn í gær og talaði meðal annars um það hve stórum og góðum leikmannahópi hann hefði úr að velja.

„Ég er með 4-5 leikmenn sem þurftu bara að æfa með U23-liðinu í morgun. Góða leikmenn, en svona er hópurinn. Eins og Birkir til dæmis, hann kemur inn í liðið og hefur verið frábær. Mér fannst hann verða að spila í dag. Ég varð að verðlauna hópinn. Glenn Whelan var klár í slaginn og hinn stóri Mile Jedinak var næstum því 100%, en ég ákvað að Birkir þyrfti að spila. Ef hann hefði ekki spilað þá hefði hópurinn ekki haft þá trú að hægt væri að koma inn, standa sig vel og halda sér í liðinu,“ sagði Bruce.

Vefmiðillinn HITC safnaði saman athugasemdum frá stuðningsmönnum Villa eftir leikinn og þeir virðast, eins og sjá má hér að neðan, ánægðir. Næsti leikur Villa er á útivelli gegn Sheffield Wednesday þriðjudaginn 30. janúar en liðið er í 4. sæti ensku B-deildarinnar með 50 stig, þremur stigum á eftir Derby sem er í 2. sæti en tvö efstu liðin fara beint upp í úrvalsdeildina í vor. Liðin í 3.-6. sæti leika um eitt laust sæti.










mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert