Watford rak stjórann og kenndi Everton um

Marco Silva hefur verið rekinn úr starfi hjá Watford.
Marco Silva hefur verið rekinn úr starfi hjá Watford. AFP

Watford tilkynnti í dag að knattspyrnustjórinn Marco Silva hefði verið rekinn en undir hans stjórn hefur liðið aðeins unnið 1 af síðustu 11 leikjum og situr í 10. sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Silva var ráðinn síðasta sumar en í yfirlýsingu frá Watford í dag er Everton kennt um að ekki skyldi ganga betur undir stjórn Portúgalans. Everton reyndi að fá Silva í nóvember eftir að Ronald Koeman var látinn fara frá Everton, en síðan þá hefur Watford tapað 8 leikjum, unnið 3 og gert 2 jafntefli í 13 deildarleikjum.

„Þetta er erfið ákvörðun og ekki tekin af léttúð. Grunnurinn að þessari ákvörðun var lagður með þessari óheimilu tilraun til að fá stjórann, sem stjórnin telur að hafi haft svo virkilega neikvæð áhrif á einbeitingu og úrslit að framtíð Watford sé stefnt í hættu,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Watford tapaði 2:0 fyrir Leicester í gær og er nú fimm stigum frá fallsvæðinu.

mbl.is