Fyrsti leikur Sánchez gegn D-deildarliði?

Alexis Sánchez.
Alexis Sánchez. Ljósmynd/twitter

Alexis Sánchez gæti spilað sinn fyrsta leik með Manchester United á föstudagskvöldið þegar liðið sækir D-deildarliðið Yeovil Town í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Sílemaðurinn, sem gekk í raðir United frá Arsenal í gær, er löglegur með Manchester-liðinu í bikarkeppninni þar sem hann lék ekki með Arsenal þegar það tapaði fyrir Nottingham Forest í 3. umferðinni.

Armeninn Henrikh Mkhitaryan sem fór til Arsenal í gær frá Manchester United má ekki spila með Arsenal annað kvöld þegar liðið mætir Chelsea í síðari undanúrslitaleiknum í ensku deildarbikarkeppninni. Ástæðan er sú að Mkhitaryan hefur komið við sögu með United í keppninni á fyrstu stigum hennar.

Mkhitaryan leikur væntanlega sinn fyrsta leik með Lundúnaliðinu gegn Swansea í deildinni á þriðjudaginn í næstu viku en hann hefur fengið úthlutað treyju númer 7, númerinu sem Sánchez var með hjá Arsenal og er kominn með hjá Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert