„Hafði ekkert með Hörð að gera“

Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Bernardo Silva í kvöld.
Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Bernardo Silva í kvöld. AFP

Lee Johnson, knattspyrnustjóri Bristol City, var spurður að því eftir leik sinna manna gegn Manchester City í síðari leik liðanna í undanúrslitunum í deildabikarnum kvöld hvers vegna Hörður Björgvin Magnússon hafi verið tekinn af velli í hálfleik.

Hörður Björgvin gerði sig sekan um slæm mistök undir lok fyrri hálfleiksins sem urðu til þess að Leroy Sané kom City yfir. Hörður reyndi að skýla boltanum upp við endamörkin en ekki vildi betur til en að Bernardo Silva náði að stela boltanum af honum, kom honum til Sané sem skoraði með föstu skoti.

„Þetta hafði ekkert með Hörð að gera. Við vildum bara blása til sóknar í seinni hálfleiknum,“ sagði Lee Johnson sem sá sína menn tapa fyrir Manchester City, 3:2.

Hörður Björgvin fékk lægstu einkunn leikmanna Bristol City hjá Sky Sports sem gaf honum 4 í einkunn. Kevin de Bruyne fékk hæstu einkunn leikmanna City eða 8 og var valinn maður leiksins.

mbl.is