Klopp biðst afsökunar á hegðun sinni

Jürgen Klopp var brúnaþungur á hliðarlínunni í gær.
Jürgen Klopp var brúnaþungur á hliðarlínunni í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur beðist afsökunar á hegðun sinni eftir að liðið tapaði fyrir Swansea, botnliði ensku úrvalsdeildarinnar, í viðureign liðanna í gærkvöldi.

Klopp lenti í útistöðum við stuðningsmann sem var í stúkunni við leikmannagöngin þar sem hann gat ekki setið á sér að svara fyrir sig.

„Einstaklingurinn var að öskra á mig allan tímann og ég biðst afsökunar á því að hafa svarað fyrir mig í eitt skipti. Ég minnti sjálfan mig á að ég er bara mannlegur en ekki bara atvinnustjóri sem getur látið allt yfir sig ganga. Ég bað hann um að hætta þessu og viðkomandi hefur örugglega verið ánægður með að fá viðbrögð hjá mér. Ég er örugglega ekki fyrsti stjórinn sem lendir í álíka atviki,“ sagði Klopp eftir leikinn.

Liverpool var að tapa sínum fyrsta leik eftir að hafa verið ósigrandi í síðustu 18 leikjum sínum og Klopp sagði að hann væri frekar pirraður á frammistöðu liðsins frekar en úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert