Meira högg að missa Sturridge en að tapa

Alan Pardew á hliðarlínunni á Stamford Bridge í kvöld.
Alan Pardew á hliðarlínunni á Stamford Bridge í kvöld. AFP

Alan Pardew, knattspyrnustjóri WBA, sagði eftir ósigur sinna manna gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld að líklega hefði verið meira högg að missa Daniel Sturridge meiddan af velli snemma leiks heldur en tapið.

Sturridge sem kom til WBA í láni frá Liverpool í síðasta mánuði fór meiddur af velli eftir aðeins þrjár mínútur.

„Hann fann fyrir tognun eftir að hafa tekið 60 metra sprett í byrjun leiksins og hann varð að koma út af. Við verðum að hlúa að honum. Hann spilar ekki í bikarnum um næstu helgi en vonandi verður hann með helgina þar á eftir,“ sagði Pardew.

„Við fengum frábært tækifæri til að koma þeim í vandræði. Við klúðruðum frábæru færi og fimm mínútum síðar lentum við 1:0 undir. Við vorum lengi vel inni í leiknum og fengum nokkur færi. Þegar Chelsea skoraði annað markið sá maður trúna aukast hjá leikmönnum Chelsea sem og stuðningsmönnunum,“ sagði Pardew en lið hans situr á botni deildarinnar og er sjö stigum frá öruggu sæti í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert