Búinn að fá nóg af Smalling og Jones

Christ Smalling og Phil Jones svekktir.
Christ Smalling og Phil Jones svekktir. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er búinn að fá nóg af Chris Smalling og Phil Jones, miðvörðum liðsins, og ætlar hann að losa sig við þá næsta sumar. Þessu greina bresk dagblöð eins og Daily Mail og Telegraph frá í dag.

Smalling og Jones hafa litið mjög illa út á köflum á leiktíðinni og var Smalling sérstaklega gagnrýndur eftir 1:0-tapið gegn Newcastle í síðasta leik. Hann fékk gult spjald fyrir leikaraskap í seinni hálfleik og skoraði Newcastle eftir aukaspyrnuna sem fylgdi í kjölfarið.

Þrátt fyrir að leikmennirnir hafi þurft að þola mikla gagnrýni, hefur ekkert lið fengið eins fá mörk á sig í ensku úrvalsdeildinni. United hefur fengið á sig 19 á meðan topplið Manchester City er búið að fá 20 mörk á sig. Margir eru hins vegar á því að David de Gea, markmaður liðsins, eigi mun meiri þátt í því en Jones og Smalling.

Raphael Varane, varnarmaður Real Madrid og Harry Maguire hjá Leicester, þykja líklegir arftakar Jones og Smalling hjá United. Mourinho og Varane unnu saman hjá Real Madrid og frammistaða Magurie á tímabilinu hefur skilað honum sæti í enska landsliðinu.

mbl.is