Kane var of þybbinn fyrir Arsenal

Harry Kane fagnar marki sínu gegn Arsenal um helgina.
Harry Kane fagnar marki sínu gegn Arsenal um helgina. AFP

Arsenal lét Harry Kane, einn besta framherja heims í dag, fara úr unglingaliði sínu, þar sem hann þótti of þybbinn og ekki í nægilega góðu formi. Þetta segir Liam Brady, fyrrverandi leikmaður beggja félaga og fyrrverandi þjálfari unglingaliðs Arsenal.

Kane talaði um tíma sinn hjá Arsenal við fjölmiðla á dögunum og sagði það mikla gæfu að hafa ekki fengið samning hjá félaginu. Þess í stað fór hann til Tottenham og var staðráðinn í að standa sig. Hann skoraði einmitt sigurmark Tottenham í 1:0-sigri liðsins á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina.

Brady sá um unglingalið Arsenal á þeim tíma sem Kane var hjá félaginu. Hann viðurkennir að það voru mistök að láta Kane fara. „Hann var frekar þybbinn og leit ekki út eins og íþróttamaður, en við gerðum mistök með að láta hann fara. Tottenham lánaði hann líka í lið í neðri deildunum áður en hann byrjaði að spila fyrir félagið,“ sagði Brady.

Kane var markahæsti leikmaður Evrópu á síðasta ári og hefur hann nú þegar skorað 32 mörk á leiktíðinni. 

mbl.is