Wenger hefur áhyggjur af Lacazette

Alexandre Lacazette gat ekki leynt vonbrigðum sínum gegn Tottenham.
Alexandre Lacazette gat ekki leynt vonbrigðum sínum gegn Tottenham. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur áhyggjur af Alexandre Lacazette, framherja liðsins eftir komu Pierre Emerick Aubameyang til félagsins, en Lacazette hefur aðeins skorað níu mörk í 29 leikjum fyrir Arsenal.

Lacazette kom inn á sem varamaður í síðasta leik Arsenal, gegn Tottenham, og brenndi af tveimur góðum færum. Að lokum tapaði Arsenal, 1:0. 

„Venjulega þegar hann er einn á móti markmanni skorar hann, hann er mikill markaskorari. Hann hefur hins vegar áður gengið í gegnum erfiða tíma og við höfum trú á honum. Kannski er sjálfstraustið hjá honum ekki eins mikið og venjulega, sérstaklega eftir að samkeppnin varð meiri,“ sagði Wenger við breska fjölmiðla.

mbl.is