Gylfi fær gríðarlegt lof frá formanninum

Gylfi Þór Sigurðsson er frábær fyrirmynd segir Guðni Bergsson.
Gylfi Þór Sigurðsson er frábær fyrirmynd segir Guðni Bergsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Bergsson, formaður KSÍ og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er í viðtali á heimasíðu Everton í dag þar sem hann talar afar vel um Gylfa Þór Sigurðsson.

„Ég hef gríðarlega trú á Gylfa. Hann er mjög áræðinn og ákveðinn í að vinna. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur, leggur hart að sér og hleypur meira en aðrir í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur alltaf sitt 100%“ sagði Guðni og heldur áfram:

„Sköpunarhæfni hans og tækni með boltann eru hans mestu styrkleikar. Hann vinnur vel á litlu svæði og er með gott auga fyrir sendingum og föstum leikatriðum. Hann getur opnað varnir andstæðinga með eitruðum sendingum og getur einnig skotið gríðarlega vel. Hann skorar úr aukaspyrnum og með skotum utan teigs, auk þess sem hann vinnur mjög vel varnarlega. Hann er nálægt því að vera hinn fullkomni alhliða leikmaður,“ sagði Guðni um Gylfa.

Guðni lék undir stjórn Sam Allardyce hjá Bolton á sínum tíma og nú er Gylfi lærisveinn Allardyce.

„Sam leggur mikið upp úr því að verjast sem lið en eins og hjá íslenska landsliðinu þá vill maður alltaf að Gylfi og fleiri skapandi leikmenn fái boltann á síðasta þriðjungi vallarins. Ef leikmenn eru á hlaupum í kringum Gylfa þá mun hann finna sendinguna. Ég er viss um að við sjáum það mikið hjá Everton,“ sagði Guðni, sem talar einnig um vinsældir Gylfa hér á landi.

„Hann er gríðarlega vinsæll á Íslandi. Við höfum fylgst af aðdáun með því hvernig hann hefur tekið framförum á ferlinum, eitthvað sem kannski var ekki búist við í upphafi. Hann hefur náð svo langt með vinnusemi og ákveðni, hann hugsar vel um sig og er einbeittur. Hann er frábær fyrirmynd fyrir börn á Íslandi,“ sagði Guðni Bergsson um Gylfa Þór Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert