Spiluðum frábæran fótbolta

Sadio Mané fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld.
Sadio Mané fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld. AFP

Senegalski knattspyrnumaðurinn Sadio Mané var maður kvöldsins í Meistaradeildinni en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í stórsigri Liverpool gegn Porto á útivelli, 5:0, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitunum.

„Satt best að segja var þetta ekki auðveldur leikur þótt við skoruðum fimm mörk. Við spiluðum frábæran fótbolta frá upphafi til enda. Ég nýt þess alltaf að spila með þessum frábæru liðsfélögum mínum. Án þessara leikmanna sem spila fyrir aftan okkur fremstu mennina þá skorum við ekki þess mörk. Þeir mata okkur,“ sagði Mané eftir leikinn.

„Sadio Mané vinnur sína vinnu og vinnur frábærlega fyrir liðið,“ sagði James Milner eftir leikinn. Við vildum halda marki okkar hreinu og með þá leikmenn sem við erum með í fremstu víglínu þá eigum við alltaf möguleika á að skora. Við hefðum alveg getað skorað fleiri mörk.“

mbl.is