Giroud opnaði markareikninginn hjá Chelsea

Olivier Giroud skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea í kvöld.
Olivier Giroud skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea í kvöld. AFP

Frakkinn Olivier Giroud skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea sem fór auðveldlega í gegnum Hull í 5. umferð enska bikarsins í knattspyrnu í kvöld þar sem lokatölur urðu 4:0. Tveir leikir fóru fram í bikarkeppninni í kvöld en í hinum leiknum vann Leicester 1:0 sigur á Sheffield United.

Chelsea tók öll völd á vellinum strax í upphafi og var 4:0 yfir í hálfleik. Brasilíumaðurinn Willian kom Chelsea yfir strax á 2. mínútu og Spánverjinn Pedro Rodriguez var næstur á ferðinni á 27. mínútu. Willian skoraði svo sitt anað mark á 32. mínútu en Giroud bætti við því fjórða á 42. mínútu og fagnaði vel enda um fyrsta mark hans að ræða fyrir félagið eftir sölu hans frá Arsenal til Chelsea.

Mahrez inn í liðið hjá Leicester

Jamie Vardy skoraði sigurmark Leicester eftir stoðsendingu frá Riyad Mahrez sem var í byrjunarliði Leicester í fyrsta skipti eftir að félagaskiptaglugginn lokaði en hann var sem kunnugt er ósáttur við það Leicester að hafa ekki leyft sér að fara til Manchester City sem bauð 95 milljónir punda í leikmanninn fyrir skemmstu.

Leicester-liðið var mun öflugra í leiknum og var með boltann 70% af leiknum en átti í erfiðleikum með að brjóta á bak aftur sterkt og skipulagt lið B-deildarlið Sheffield United en sigurmark Vardy kom á 66. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert