„Hefur verið draumur minn alla ævi“

Steven Davies er hér að jafna metin fyrir Rochdale í …
Steven Davies er hér að jafna metin fyrir Rochdale í uppbótartíma. AFP

„Að hafa náð jafntefli á móti toppliði úr ensku úrvalsdeildinni er frábært,“ sagði Ian Henderson, fyrirliði enska C-deildarliðsins Rochdale, eftir jafntefli sinna manna gegn Tottenham í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær.

Rochdale, sem situr í neðsta sæti C-deildarinnar, náði að knýja fram annan leik sem fer fram á Wembley með því að jafna metin í 2:2 í uppbótartíma.

„Við getum ekki beðið eftir því að spila á Wembley. Það hefur verið draumur minn alla ævi að fá að spila þar,“ sagði Henderson sem kom Rochale í 1:0 í fyrri hálfleik. Lucas Moura og Harry Kane komu Tottenham yfir í seinni hálfleik en varamaðurinn Steve Davies jafnaði metin á þriðju mínútu í uppbótartíma.

„Ég hef verið meiddur í sjö vikur og það hefur verið erfitt að komast aftur í leikmannahópinn. Það var skrifað í skýin að þetta myndi enda svona. Við sýndum frábæran karakter,“ sagði hetja Rochdale-liðsins eftir leikinn.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert