Fær Agüero langt bann?

Sergio Agüero í vígahug eftir leikinn gegn Wigan.
Sergio Agüero í vígahug eftir leikinn gegn Wigan. Ljósmynd/Twitter

Enska knattspyrnusambandið mun í dag hefja rannsókn á því sem gerðist eftir leik Wigan og Manchester City í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöld þar sem C-deildarliðið gerði sér lítið fyrir og sló City úr leik.

Eftir leikinn þustu stuðningsmenn Wigan inn á völlinn og fögnuðu sínum mönnum eftir sigurinn magnaða. Tapið fór illa í leikmenn og stuðningsmenn Manchester City. Argentínski sóknarmaðurinn Sergio Agüero var mjög í kastljósinu en hann sló til stuðningsmanns Wigan og þá eru sögusagnir í gangi að hann hafi hrækt á hann. Margir hafa kallað eftir því að Agüero verið úrskurðaður í langt keppnisbann en það ætti skýrast í vikunni hvort Argentínumanninum verði refsað.

Þá misstu nokkrir stuðningsmenn Manchester City stjórn á skapi sínu og létu reiði sína bitna á auglýsingaskiltum. Þeir brutu nokkur þeirra og mun enska knattspyrnusambandið einnig ætla að skoða hegðan þeirra sem og stuðningsmanna Wigan en félagið á yfir höfði sér sekt fyrir að koma ekki í veg fyrir að stuðningsmennirnir þustu inn á völlinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert