Þetta var ótrúleg tilfinning

Will Grigg er hér að skora sigurmarkið.
Will Grigg er hér að skora sigurmarkið. AFP

Will Grigg framherji Wigan er í kastljósi enskra fjölmiðla í dag eftir að hann skaut Manchester City út úr ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í gærkvöld.

Norður-Írinn skoraði eina mark leiksins og C-deildarliðið er komið í átta liða úrslitin þar sem það mætir Southampton á heimavelli.

„Ég hef skorað á móti nokkrum úrvalsdeildarliðum og hef átt nokkur frábær kvöld og farið upp um deild með liðum,“ sagði þessi 26 ára gamli framherji sem skoraði tvö mörk fyrir MK Dons í frægum sigri gegn Manchester United í ensku deildabikarkeppninni árið 2014.

„En ef ég á að nefna eitt kvöld þá er þetta líklega það besta. Við unnum líklega besta lið Evrópu um þessar mundir sem hefur verið á miklu flugi. Það verður erfitt að toppa þetta og fyrir mig var mjög sérstakt að skora sigurmarkið.“

„Ég lenti í kapphlaupi við Kyle Walker í markinu. Hann er líklega einn sá fljótasti inni á vellinum en mín fyrsta snerting tók hann út úr leiknum. Mér tókst að koma boltanum neðst í markhornið sem var ótrúleg tilfinning. Við förum óhræddir í leikinn á móti Southampton enda vorum við að slá út besta lið Evrópu um þessar mundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert