Spænskt smálið ógnar Manchester City

Manchester City er með yfirburðastöðu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en …
Manchester City er með yfirburðastöðu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en tengslin við Girona gætu reynst liðinu fjötur um fót. AFP

Stafar enska knattspyrnustórveldinu Manchester City ógn af spænska smáliðinu Girona sem hefur komið skemmtilega á óvart í efstu deildinni á Spáni í vetur?

Girona er lið sem nánast enginn þekkti þar til í vetur en það er nú á sínu fyrsta ári í 1. deildinni, LaLiga, og aðeins fjórum stigum frá Evrópusæti þegar fjórtán umferðum er ólokið. Félagið hefur annars leikið í neðri deildum Spánar allt frá árinu 1933 en var á sínu níunda ári í B-deildinni þegar það hafnaði í öðru sæti á síðasta tímabili og komst þar með upp.

Enski knattspyrnublaðamaðurinn Graham Ruthven birti í gær athyglisverða grein á netmiðlinum Yahoo Sport UK þar sem hann útskýrir málið og hún fer hér á eftir í íslenskri þýðingu:

Á milli Pýreneafjallanna og baðstrandanna á Costa Brava í Katalóníu er lítill bær sem nefnist Girona. Þetta er bæjarfélag sem virðist hafa orðið út undan í ys og þys nútímans og er í algjörri þversögn við stórborgina Barcelona sem er í aðeins rúmlega 100 kílómetra fjarlægð. Það er svo sannarlega ekki líklegasti staðurinn til að valda mesta hagsmunaárekstri í sögu fótboltans.

City Football Group, í samvinnu við umboðsmanninn Pere Guardiola, bróður Pep Guardiola knattspyrnustjóra Manchester City, keypti knattspyrnufélag bæjarins fyrir ári síðan og félagið hefur risið ótrúlega hratt á skömmum tíma. Nú þegar um tveir þriðju af fyrsta tímabilið félagsins í efstu deild eru að baki er Girona í áttunda sæti. Það er alls ekki útilokað að Katalóníuliðið geti komist í Evrópudeild UEFA á fyrsta tímabili sínu í 1. deildinni.

Það ætti að valda City Football Group verulegum áhyggjum, og þar með Manchester City. Það er mögulegt að Manchester City gæti verið svipt sæti í Evrópukeppni vegna tengslanna við smáliðið Girona á Spáni. Þeir ættu að hafa áhyggjur af velgengni Girona. Hún gæti reynst þeim stórt vandamál.

Pablo Maffeo, tvítugur spænskur varnarmaður, er samningsbundinn Manchester City en …
Pablo Maffeo, tvítugur spænskur varnarmaður, er samningsbundinn Manchester City en leikur sitt annað tímabil sem lánsmaður hjá Girona og hefur spilað 20 deildaleiki í vetur. AFP

Ef Girona vinnur sér sæti í Evrópukeppni taka reglur UEFA um tvöfalt eignarhald gildi. Enska knattspyrnusambandið bannar aðeins eignarhald á tveimur liðum þegar bæði eru á Englandi, en engar slíkar reglur eru til staðar á Spáni. En Knattspyrnusamband Evrópu lítur það mun alvarlegri augum ef félög sem taka þátt í mótum á vegum þess eru með mörg járn í eldinum.

Ef Girona ynni sér keppnisrétt í Evrópudeild UEFA fyrir næsta tímabil, fengi liðið ekki að taka þátt, svo framarlega sem Manchester City vinnur sér keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu. UEFA veitir þá réttinn því liði sem er ofar í sinni deild. Það sama gerist ef bæði liðin myndu vinna sér sæti í Meistaradeildinni – þá fengi það lið sem hefði hafnað ofar í sinni deild keppnisréttinn.

Eins og staðan er í augnablikinu stendur Manchester City ekki alvarleg ógn af Girona. Liðið er langefst í ensku úrvalsdeildinni á meðan Girona er rétt að komast í baráttuna um sjötta sætið á Spáni. En fótboltalandslagið á Spáni gæti fært Girona meiri möguleika og valdið City vandræðum. Málið er að oft er eitt „laust pláss“ í hópi fjögurra efstu liðanna á Spáni, rétt eins og lið á borð við Málaga og Real Sociedad hafa nýtt sér á undanförnum árum. Einnig ber að líta til þess hvernig Girona er þegar komið í hóp átta efstu liðanna án mikilla fjárfestinga. Þeir gætu, með stuðningi City Football Group, komist í Meistaradeildina innan fárra ára.

Manchester City getur ekki stólað á að vinna ensku úrvalsdeildina á hverju ári. Guardiola og hans menn urðu t.d. að sætta sig við þriðja sætið í fyrra. Þrátt fyrir stöðu liðsins í dag þarf ekki mikið að fara úrskeiðis til að það detti þangað aftur. Ef það gerist, um leið og Girona tekur næsta stökk, gætu þeir ljósbláu verið komnir í vandræði.

Leikmenn Girona fagna marki í leik gegn Atlético Madrid í …
Leikmenn Girona fagna marki í leik gegn Atlético Madrid í vetur. AFP

Forráðamenn City Football Group gætu bent á að þeir eru ekki meirihlutaeigendur í Girona, eigi aðeins 44 prósent í félaginu. En reglur UEFA um tvöfalt eignarhald ná einnig yfir þá stöðu þegar meirihlutaeigandi í einu félagi getur haft áhrif á það sem gerist í öðru félagi. Hvað Girona varðar, þá er bróðir Pep Guardiola meirihlutaeigandi þar. Manchester City myndi eiga í vandræðum með að verja sitt mál.

Girona hefur þegar sigrað Real Madrid í vetur og mætir Barcelona á Camp Nou um næstu helgi. Sigur þar myndi undirstrika hve langt Girona hefur náð á mjög skömmum tíma. Árangurinn á félagið að miklu leyti að þakka tengslunum við Manchester City, sem voru endanlega mótuð síðasta sumar. Sem stendur er Girona með fimm leikmenn í láni frá City, og það er ástæða þess að City Football Group sér hag í því að vera í tengslum við Girona.

Manchester City hefur varið 200 milljónum punda í að byggja upp glæsilega akademíu sína, þar sem forráðamenn félagsins ætla sér að ala upp framtíðarmenn sína. En vandamálið er að á Englandi er engin auðveld leið til að efnilegir leikmenn fái keppnisreynslu. Þar sér City Football Group fyrir sér hlutverk Girona. Þar eiga margir af ungum leikmönnum City að fá tækifæri til að láta til sín taka í sterkri deild.

Auðvitað er þetta ekkert nýtt. Manchester United hefur verið í samvinnu við Antwerpen í Belgíu og sent marga leikmenn þangað sem lánsmenn, og samstarf Chelsea við Vitesse í Holland er vel þekkt. En forráðamenn City hafa sett upp sams konar módel án þess að verja sjálfa sig og það gæti einn góðan veðurdag komið aftan að þeim.

Greinin hjá Yahoo Sport UK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert