„Svona gerir maður ekki“

Frá viðureign Chelsea og Barcelona. Victor Moses og Luis Suárez …
Frá viðureign Chelsea og Barcelona. Victor Moses og Luis Suárez í baráttunni um boltann. AFP

Hinn ungi Andreas Christensen, miðvörður Chelsea, gerði sig sekan um slæm mistök í leiknum gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Daninn, sem er 21 árs gamall, sendi þá boltann þvert yfir eigin vítateig. Andrés Iniesta komst inn í sendinguna, lagði boltann á Lionel Messi sem jafnaði metin fyrir Börsunga og skoraði um leið sitt fyrsta mark í níu Meistaradeildarleikjum gegn Chelsea. Leiknum lyktaði með 1:1 jafntefli og liðin eigast við á Camp Nou í seinni leiknum í 16-liða úrslitum eftir hálfan mánuð.

„Hann átti þversendingu yfir vítateiginn og svona gerir maður ekki sem varnarmaður,“ sagði Rio Ferdinand, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, í spjalli á BT Sport í gær.

Þrátt fyrir þessi mistök fékk Christensen mikið hrós frá Antonio Conte, knattspyrnustjóra Chelsea, eftir leikinn.

„Christiansen var einn af mínum bestu leikmönnum. Hann átti toppleik og ég var mjög ánægður með hann,“ sagði Conte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert