„Ég væri fullur viðbjóðs“

Hart barist í leik Sevilla og Manchester United í gærkvöld.
Hart barist í leik Sevilla og Manchester United í gærkvöld. AFP

Þjóðverjinn Dietmar Hamann, fyrrverandi leikmaður Liverpool sem varð Evrópumeistari með liðinu árið 2005, og Ian Wright, fyrrverandi sóknarmaður Arsenal, voru ekki hrifnir af frammistöðu Manchester United í leiknum gegn Sevilla í Meistaradeildinni í gærkvöld.

Markalaust jafntefli varð niðurstaðan þar sem David de Gea bjargaði því að United fékk ekki á sig mörk í leiknum. Sevilla stjórnaði leiknum meira og minna allan leikinn og átti 25 marktilraunir á móti 6 frá Manchester-liðinu.

„Þetta var hræðilegur fótbolti af hálfu Manchester United og vandræðaleg frammistaða hjá liði eins og Manchester United sem hefur eytt miklum fjármunum í leikmenn,“ sagði Hamann.

„Ef ég væri stuðningsmaður United þá væri ég fullur viðbjóðs. Þau Manchester United-lið sem ég var vanur að mæta reyndu að sækja á þig. Ef þú lítur á þá leikmenn sem United hefur, Rashford, Martial, Sánchez, Lukaku og með Pogba fyrir aftan. Myndi það ekki hræða þig? Lið United á að gera miklu betur með þá leikmenn sem það hefur. Ég er undrandi á þessum steingelda fótbolta sem liðið spilar,“ sagði Wright.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert