Jafnt í Leicester eftir fjörugar lokamínútur

Xherdan Shaqiri (t.v.) kom Stoke yfir í dag og er …
Xherdan Shaqiri (t.v.) kom Stoke yfir í dag og er hér í baráttu við Marc Albrighton, leikmann Leicester. AFP

Leicester og Stoke skildu jöfn, 1:1, eftir fjörugar lokamínútur á King-Power-vellinum í Leicester í dag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Svisslendingurinn Xherdan Shaqiri kom Stoke yfir í fyrri hálfleik eftir að liðið hafði unnið boltann á vallarhelmingi Leicester. Shaqiri fékk boltann og tók á rás í átt að markinu og afgreiddi boltann með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig, 1:0, og þannig var staðan í hálfleik.

Jöfnunarmark Leicester kom á 70. mínútu og var heldur skrautlegt en Jack Butland, markvörður Stoke, gerði sig sekan um skelfileg mistök er hann var aldrei líklegur til þess að halda fastri sendingu Mark Albrighton fyrir markið. Af Butland fór boltinn því í netið, 1:1.

Bæði lið sóttu til sigurs á lokamínútunum og fengu færi. Heimamenn í Leicester voru hins vegar hættulegri og voru hársbreidd frá því að skora er Riyad Mahrez komst einn í gegn en Butland varði hins vegar vel frá honum. Mínútu síðar skallaði svo Matty James í stöng eftir sendingu frá Mahrez. Lokatölur 1:1.

Leicester hefur 36 stig í 7. sæti deildarinnar. Stoke hefur 26 stig í 19. sæti og er stigi frá öruggu sæti.

Leicester 1:1 Stoke opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert