Watford spyrnti sér frá fallsvæðinu

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton, í baráttu við Daryl Janmaat, ...
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton, í baráttu við Daryl Janmaat, leikmann Watford, í leik liðanna í dag. AFP

Watford komst sex stigum frá fallsvæði ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla með 1:0-sigri sínum gegn Everton í 28. umferð deildarinnar á Vicarage Road í dag.

Það var Troy Deeney, fyrirliði Watford, sem skoraði sigurmark liðsins þegar um það bil tíu mínútur voru eftir af leiknum. Deeney skoraði með föstu og góðu skoti eftir góðan undirbúning Stefano Okaka sem kom með mikinn kraft eftir að hafa komið inná sem varamaður.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton í leiknum, en hann var tekinn af velli á 82. mínútu leiksins. Gylfi Þór átti nokkrar fínar fyrirgjafir bæði úr opnu spili og föstum leikatriðum, en leikmenn Everton náðu ekki að færa sér fyrirgjafirnar í nyt.

Everton er í níunda sæti deildarinnar með 34 stig, en Watford er sæti neðar með einu stigi minna eftir þennan sigur.   

Watford 1:0 Everton opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 1:0-sigri Watford.
mbl.is