Fyrsti titill Guardiola á Englandi

Pep Guardiola stýrði Manchester City til sigurs í enska deildarbikarnum, en liðið vann Arsenal, 3:0, í úrslitaleik keppninnar á Wembley í dag. Þetta er fyrsti titill Guardiola á enskri grundu. 

Sergio Agüero kom Manchester City yfir eftir tæplega tuttugu mínútna leik. Agüero slapp þá í gegnum vörn Arsenal eftir markspyrnu Claudio Bravo og argentínski sóknarmaðurinn vippaði boltanum laglega yfir David Ospina, markvörð Arsenal. 

Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, tvöfaldaði svo forystu liðsins þegar hann skoraði með skoti í autt markið af stuttu færi eftir hornspyrnu. David Silva rak svo síðasta naglann í líkkistu Arsenal þegar hann bætti þriðja marki Manchester City við skömmu síðar.

Silva sneri þá laglega á Calum Chambers og skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Manchester City fagnaði sannfærandi sigri, en liðið tryggði sér þar af leiðandi fyrsta titilinn sem í boði er á keppnistímabilinu. 

Manchester City stefnir á þrjá titla

Þetta er í fimmta sinn sem Manchester City vinnur enska deildabikarinn og í þriðja sinn á síðustu fimm árum. Manchester City varð enskur deildabikarmeistari árin 2014 og 2016 og þar áður vann Manchester City enska deildabikarinn árin 1970 og 1976.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur nú tapað þremur úrslitaleikjum í enska deildabikarnum. Arsenal laut einnig í lægra haldi í úrslitum keppninnar árin 2007 og 2011. 

Allt útlit er fyrir að Manchester City verði enskur meistari í vor, en liðið féll hins vegar úr leik í enska bikarnum eftir að hafa tapað fyrir Wigan Athletic í 16 liða úrslitum keppninnar í síðustu viku. 

Þá er Manchester City i góðum málum í viðureign sinni gegn Basel í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Manchester City hafði betur, 4:0, í fyrri leik liðanna sem spilaður var í Basel í Sviss. 

Arsenal 0:3 Man. City opna loka
90. mín. Leik lokið Manchester City er enskur deildabikarmeistari.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert