Burnley hefur augastað á Aroni Einari

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sean Dyche knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Burnley er sagður hafa mikinn áhuga á að fá landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson til liðs við sig frá Cardiff City í sumar.

Samningur Arons Einars við Cardiff rennur út í sumar en hann hafnaði nýjum samning við velska liðið í nóvember. Hann hefur leikið með félaginu frá árinu 2011. Aron Einar, sem hefur verið frá keppni vegna meiðsla síðustu mánuðina, vonast til þess að að komast upp í úrvalsdeildina með Cardiff og takist það er möguleiki á að hann verði áfram í herbúðum félagsins, sem er í öðru sæti í ensku B-deildinni.

Fram kemur í frétt í enska blaðinu Daily Mail að Dyche hafi lengi haft miklar mætur á Aroni Einari og hann gæti verið með tvo Íslendinga í sínum röðum á næstu leiktíð en Jóhann Berg Guðmundsson leikur með liðinu.

Jóhann Berg hefur átt afar góðu gengi að fagna með Burnley og fjölmiðlar á Englandi sögðu frá því í gær að Newcastle, Leicester og Sout­hampt­on séu öll með augastað á íslenska landsliðsmanninum.

mbl.is