Góðir sigrar eru fljótir að gleymast

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United.
José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að ef lið sitt tapi gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu í kvöld verði góðir sigrar liðsins á undanförnum vikum fljótir að gleymast.

United og Sevilla mætast á Old Trafford í kvöld í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en þau skildu jöfn, 0:0, í fyrri leiknum á Spáni þar sem Mourinho og hans menn áttu lengst af í vök að verjast.

United lagði erkifjendurna í Liverpool, 2:1, á laugardaginn en Mourinho sagði á fréttamannafundi í gær að ekki væri hægt að lifa lengi á því.

„Í nútímafótbolta lifir þú fyrir einn dag í einu, eina viku í einu og einn leik í einu. Ef við töpum gegn Sevilla býst ég við því að allir gleymi því sem við höfum gert undanfarnar vikur. Þú verður að lifa í núinu og laga þig að því. Vissulega höfum við sigrað Chelsea, Arsenal, Tottenham og Liverpool – City er eina liðið af sex efstu sem við höfum ekki unnið – en það hefur ekkert að segja því nú á tímum verður þú að sanna þig upp á nýtt í hverjum leik,“ sagði Mourinho.