Jóhann Berg vill enda ofar en Arsenal

Það gengur vel hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni.
Það gengur vel hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Burnley, vill sjá liðið enda fyrir ofan stórlið Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, en fimm stig skilja liðin að. 

Burnley hefur komið liða mest á óvart í deildinni og á raunhæfa möguleika á að ná Evrópusæti, þegar níu leikir eru eftir af deildinni. Burnley var um tíma í fjórða sæti, en lék þá 11 leiki í röð án þess að ná í sigur. 

Sigrar á Everton og West Ham í síðustu tveimur leikjum, hafa hins vegar gefið Jóhanni og félögum mikið. „Arsenal er aðeins fimm stigum fyrir ofan okkur. Við munum halda áfram að fara í alla leiki og leggja eins hart að okkur og við getum," sagði Jóhann í samtali við BT sjónvarpsstöðina.

„Það væri frábært að ná Arsenal, en ef ekki, þá er þetta samt búið að vera mjög gott tímabil. Við viljum halda áfram að bæta okkur. Við höfum aldrei verið eins fljótir upp í 40 stig og nú erum við með önnur markmið."

Jóhann Berg átti erfitt tímabil á síðustu leiktíð vegna meiðsla. Á þessari leiktíð hefur hann verið meiðslalaus og spilað gríðarlega vel. 

„Síðasta tímabil var erfitt. Ég meiddist á læri og hné og það tók á. Það var pirrandi, en á þessari leiktíð hef ég spilað vel. Liðið hefur líka spilað vel og það hefur gengið vel. Ég hef spilað meira en ég hef verið á bekknum og það er gott."

Jóhann Berg spjallaði líka um HM í Rússlandi og líkindin á milli Burnley og íslenska landsliðsins. 

„Ef ég spila eins vel á HM og ég hef gert með Burnley er það bara jákvætt. Það er margt líkt með Burnley og Íslandi. Hvernig liðið spilar og andinn í hópnum. Það gengur vel hjá báðum líðum," sagði Jóhann Berg Guðmundsson að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert