Fellur þriðja enska liðið úr leik?

Leikmenn Chelsea á æfingu á Camp Nou í gærkvöld.
Leikmenn Chelsea á æfingu á Camp Nou í gærkvöld. AFP

Síðustu tveir leikirnir í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu fara fram í kvöld.

Á Camp Nou tekur Barcelona á móti Englandsmeisturum Chelsea en fyrri leik liðanna á Stafmford Bridge lyktaði með 1:1 jafntefli.

Í Tyrklandi eigast við Besiktas og þýsku meistararnir í Bayern München sem unnu fyrri leikinn, 5:0, á heimavelli sínum.

Flestir hallast að því að Barcelona nái að slá Chelsea út og verði það niðurstaðan verða bara tvö ensk lið í átta liða úrslitunum, Manchester City og Liverpool, en Manchester United og Tottenham féllu bæði úr leik á heimavelli í 16-liða úrslitunum.

„Þú hlýtur að vera spenntur að spila leik eins og þennan og það á Camp Nou. Margir af leikmönnum mínum hafa aldrei spilað á þessu velli og við viljum reyna að gera okkar besta til þess að komast áfram. Við spiluðum virkilega vel í fyrri leiknum, nánast fullkomin leik. Það var á móti liði sem ég tel að sé eitt það besta í heiminum,“ sagði Antonio Conte knattspyrnustjóri Chelsea á fréttamannafundi í gær.

Chelsea hefur ekki tapað fyrir Barcelona í síðustu átta viðureignum liðanna í Meistaradeildinni en Barcelona hefur unnið ensk lið í Meistaradeildinni 23 sinnum

Barcelona vonast til þess að fyrirliðinn Andrés Iniesta verði klár í slaginn en hann hefur átt við meiðsli að stríða. Bakvörðurinn Antonio Rudiger tekur út leikbann í liði Chelsea.

Liðin sem eru komin áfram í Meistaradeildinni eru:

Liverpool
Manchester City
Sevilla
Juventus
Real Madrid
Roma

mbl.is