Kane verður frá keppni næstu vikurnar

Harry Kane.
Harry Kane. AFP

Harry Kane, framherji Tottenham og enska landsliðsins í knattspyrnu, verður frá keppni næstu vikurnar.

Íslendingar biðu með öndina í hálsinum eftir fregnum af Gylfa Þór Sigurðssyni og Everton greindi frá því í hádeginu að Gylfi verði frá keppni í 6-8 vikur. Sama má segja um Englendinga. Þeir hafa beðið milli vonar og ótta um að fá að vita um meiðsli Kane enda er hann lykilmaður í landsliðinu líkt og Gylfi Þór.

Kane meiddist á ökkla í leik Tottenham gegn Bournemouth um síðustu helgi. Hann fór í myndatöku á mánudaginn og í dag komu fréttir úr herbúðum Tottenham þess efnis að Kane verður frá keppni næstu vikurnar og byrjar ekki að æfa aftur fyrr en í apríl.

Kane meiddist á sama ökkla og var að angra hann á síðustu leiktíð en þá var hann frá keppni í samtals 10 vikur.

Kane ætti því að verða klár í slaginn með Englendingum á HM en fyrsti leikur þeirra verður gegn Túnis þann 18. júní.

mbl.is