„Svona er fótboltinn“

Nemanja Matic.
Nemanja Matic. AFP

Nemanja Matic, serbneski miðjumaðurinn í liði Manchester United, telur að Sevilla hafi komist verðskuldað áfram í Meistaradeildinni en Sevilla hafði betur gegn United, 2:1, á Old Trafford í gærkvöld í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum.

„Það er vitaskuld erfitt að taka þessu. Við erum ekki sáttir enda erum við úr leik í Meistaradeildinni. En svona er fótboltinn. Við þurfum víst að sætta okkur við þetta og einblína á næsta leik sem er einnig mjög mikilvægur.

Við verðum að gleyma þessum leik en að fara yfir mistökin sem við gerðum og hvað við getum gert betur,“ segir Matic eftir leikinn en Manchester United tekur á móti Brighton í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á laugardagskvöldið.

„Við einblínum líka á deildina en við verðum að óska Sevilla til hamingju. Það spilaði mjög vel og verðskuldaði að komast áfram.“

mbl.is