„Þetta var hræðilegt“

Viðbrögð Nemanja Matic og Eric Bailly eftir fyrra markið sem ...
Viðbrögð Nemanja Matic og Eric Bailly eftir fyrra markið sem Sevilla skoraði. AFP

„Þetta var hræðilegt,“ sagði Rio Ferdinand fyrrverandi fyrirliði Manchester United eftir 2:1 tap liðsins á heimavelli fyrir Sevilla í Meistaradeildinni í gærkvöld og með tapinu féll United úr leik í Meistaradeildinni.

„Ég sá ekki fyrir mér þessi úrslit eða þessa frammistöðu, sérstaklega eftir úrslitin um helgina á móti Liverpool og hvernig United spilaði þann leik.

Ég hélt að það kæmi með sjálfstraust inn í þennan leik. Það leit út eins og liðinu hefði verið kastað saman með fullt af ókunnugum leikmönnum. Það var mikil taugaveiklun í United-liðinu og það spilaði að varfærni frá byrjun leiks,“ sagði Ferdinand.

„Á þessum velli þarftu að gefa stuðningsmönnum eitthvað til gleðjast yfir. Völlurinn var hljóður og það var leikmönnum að kenna,“ sagði þessi fyrrum fyrirliði United við BT Sport.

mbl.is