Mourinho með „Benítez ræðu“

Pressan virðist vera að ná til José Mourinho.
Pressan virðist vera að ná til José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, sat í dag fréttamannafund fyrir leik liðsins gegn Brighton í enska bikarnum, sem fram fer annað kvöld. Mourinho hefur verið mikið gagnrýndur eftir að United féll úr leik gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu.

Mourinho gaf fréttamönnum hins vegar fá færi til að spyrja sig, þar sem hann tók orðið sjálfur og talaði í 12 mínútur, án þess að stoppa. Ræðan minnti helst á ræðu hjá Rafa Benítez árið 2009, er hann lýsti yfir pirringi sínum með dómara og Sir Alex Ferguson. Þá var Bentítez stjóri Liverpool og Sir Alex var stjóri Manchester United. 

Í kjölfar þeirrar ræðu missti Liverpool flugið, en liðið var á toppi deildarinnar fyrir fréttamannafundinn og var Benítez harðlega gagnrýndur fyrir að ná ekki að standast pressuna. Nú virðist Mourinho vera kominn á sama stað. 

Þrátt fyrir tapið gegn Sevilla virtist Mourinho afsaka sig með því að segja að United væri ekki vant því að komast langt í Meistaradeildinni og því væri þetta ekki svo slæmt. „Stuðningsmenn eru stuðningsmenn og þeir eiga rétt á því að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er hins vegar til svolítið sem ég kalla knattspyrnuættfræði. United hefur aðeins komist einu sinni í átta liða úrslit frá 2011,“ sagði Mourinho.

„Ég ætla ekki að hlaupa í burtu, láta mig hverfa eða gráta því einhverjir bauluðu á mig,“ sagði Mourinho. „Ég er ekki hræddur við þá ábyrgð sem ég hef,“ bætti hann við. Mourinho var vissulega ráðinn til að koma United lengra í keppnum eins og Meistaradeildinni og eru stuðningsmenn allt annað en ánægðir með ummæli Portúgalans.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert