Tosun með tvö í sigri Everton

Liðsmenn Everton fagna sigurmarki Tosun í dag.
Liðsmenn Everton fagna sigurmarki Tosun í dag. AFP

Framherjinn Cenk Tosun er kominn í gang hjá Everton og skoraði bæði mörkin í 2:1 sigri liðsins á Stoke í ensku úrvalsdeildinni. Charlie Adam fékk rautt spjald hjá Stoke strax á 30. mínútu eftir að hann tæklaði Wayne Rooney.

Tosun er kominn með þrjú mörk í jafn mörgum leikjum. Hann kom Everton yfir á 69. mínútu en  Eric Maxim Choupo-Moting jafnaði á 77. mínútu. Tyrkinn skoraði hins vegar sigurmarkið á 84. mínútu með flugskalla.

Gylfi Þór Sigurðsson var að sjálfsögðu fjarri góðu gamni í dag vegna þeirra meiðsla sem hann varð fyrir í síðustu umferð.

Everton hefur 40 stig í 9. sæti deildarinnar en Stoke er í miklum vandræðum og hefur 27 stig í 19. og næstneðsta sæti deildarinnar og er þremur stigum frá öruggu sæti.

Ekki hjálpaði það Stoke að Crystal Palace vann frábæran 2:0 útisigur á Huddersfield og kom sér í 30 stig. James Tomkins og Luka Milivojevic skoruðu mörk Palace. Huddersfield hefur 31 stig í 15. sæti og hefur hægt og bítandi verið að nálgast fallbaráttuna.

Í þriðja leik dagsins vann Bournemoth 2:1 sigur á botnliði WBA. Jay Rodriguez kom WBA yfir á 49. mínútu en síðbúin mörk frá Jordon Ibe á 77. mínútu og Junior Stanislas á 89. mínútu tryggðu Bournemouth stigin þrjú. Bournemouth hefur 36 stig í 11. sæti en WBA hefur aðeins 20 stig, er 10 stigum frá öruggu sæti þegar átta umferðir eru eftir og hefur tapað sex leikjum í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert