„Ég er heima“

N'Golo Kante.
N'Golo Kante. AFP

N'Golo Kante, miðjumaðurinn duglegi og góði í liði Chelsea, ætlar að halda kyrru fyrir hjá Lundúnaliðinu en meðal þeirra liða sem hann hefur verið orðaður við er franska liðið Paris SG.

Kante hefur hampað Englandsmeistaratitlinum síðustu tvö árin. Fyrst með Leicester City en með Chelsea á síðustu leiktíð. Bæði tímabilin var hann frábær og átti stóran þátt í að tryggja liðum sínum Englandsmeistaratitilinn.

„Ég er heima. Chelsea er mitt félag og ég er leikmaður liðsins. Þetta er annað tímabilið mitt með Chelsea. Tímabilið í fyrra var frábært þar sem við fögnuðum titlinum. Á öðru tímabilinu hef ég spilað með liðinu í Meistaradeildinni og við ætlum að enda tímabilið á meðal þeirra fjögurra efstu,“ segir Kante.

Chelsea er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, er fimm stigum á eftir Tottenham sem situr í fjórða sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert