Messi miklu betri í öllu öðru

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP

Eftir magnaða frammistöðu Egyptans Mohamed Salah með Liverpool á leiktíðinni og ekki síst um síðustu helgi þegar hann skoraði fernu í stórsigri gegn Watford hafa margir sparkspekingar borið hann saman við Argentínumanninn Lionel Messi í liði Barcelona.

Sjálfur segir Salah að hann geti dregið undir línu í þessu tali með því að hann geti aðeins keppt við Argentínumanninn á einu sviði. Það er fjöldi marka sem Liverpool hefur skorað á leiktíðinni. Að öðru leyti sé Messi miklu betri í öllu öðru.

„Það er vissulega gott að vera líkt við eins frábæran leikmann og Messi sem hefur verið á toppnum í svona mörg ár. En ég get bara rætt um samanburð hvað varðar fjölda marka sem við höfum skorað,“ segir Salah, sem hefur skorað 36 mörk fyrir Liverpool í öllum keppnum á leiktíðinni. Þar af hefur hann skorað 28 mörk í ensku úrvalsdeildinni og er markahæstur.

mbl.is