Hefur spilað sinn síðasta með United

Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. AFP

Það lítur allt út fyrir að Zlatan Ibrahimovic hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United en fregnir frá Bandaríkjunum herma að Svíinn muni ganga til liðs við bandaríska liðið LA Galaxy á næstu dögum.

Líklegt er að LA Galaxy kynni Zlatan til leiks næstkomandi þriðjudag sem þýðir að hann hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United. José Mourinho, stjóri United, er sagður hafa gefið grænt ljós á að Zlatan fái að yfirgefa félagið áður en samningur hans rennur út í sumar.

Zlatan átti frábært tímabil með Manchester-liðinu á síðustu leiktíð en hann meiddist illa á hné í mars á síðasta ári og sneri ekki til baka úr meiðslunum fyrr en í nóvember. Hann kom við sögu í nokkrum leikjum eftir endurkomuna en hefur ekkert leikið með Manchester-liðinu frá því á öðrum degi jóla.

Zlatan, sem er 36 ára gamall, hefur skorað 29 mörk í 53 leikjum með Manchester United en hann kom til liðsins árið 2016 frá Paris SG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert