Piqué var skíthræddur við Roy Keane

Gerard Piqué.
Gerard Piqué. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Gerard Piqué rifjaði upp áhugavert atvik frá tíma sínum hjá Manchester United í viðtali á dögunum. Piqué var ungur og efnilegur er hann spilaði með United og var hann 18 ára þegar Roy Keane missti stjórn á skapi sínu og húðskammaði Spánverjann.

Keane er þekktur fyrir að vera harður í horn að taka og gríðarlega skapstór. Missti hann t.d stjórn á skapi sínu þegar sími fréttamanns fór af stað á fréttamannafundi er hann var knattspyrnustjóri Ipswich.

Piqué man mjög vel eftir því þegar hann fékk að heyra það frá Keane í búningsklefa fyrir leik. „Þetta var einn af fyrstu leikjunum mínum á Old Trafford. Við vorum í búningsklefanum að gera okkur tilbúna og ég var mjög stressaður.“

„Ég var 18 ára og ég var að fara í sokkana við hliðina á Ruud van Nistelrooy, Ryan Giggs og Rio Ferdinand. Ég vildi vera ósýnilegur og bara vinna vinnuna mína hljóðlaust. Við vorum að bíða eftir Sir Alex Ferguson og ég sit við hliðina á Roy Keane. Búningsklefinn var lítill og lappirnar á okkur snertast næstum því.“

„Það var dauðaþögn og allt í einu heyrðist titringur, mjög lágt. Roy lítur í kringum sig þegar ég fatta að þetta er síminn minn. Ég gleymdi að slökkva á honum og hann var í poka beint fyrir ofan höfuðið á Roy Keane. Hann lítur í kringum sig eins og hann sé klikkaður, augun út um allt. Svo öskrar hann yfir alla og spyr hver eigi símann. Hann þurfti að spyrja þrisvar áður en ég þorði að viðurkenna að þetta væri síminn minn. Keane tapaði sér í kjölfarið fyrir framan alla og ég kúkaði næstum á mig. Ég lærði hins vegar af þessu,“ sagði Piqué um atvikið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert