Leiðin að Englandsmeistaratitlinum hófst á Íslandi

Pep Guardiola hefur unnið sinn sjöunda deildarmeistaratitil.
Pep Guardiola hefur unnið sinn sjöunda deildarmeistaratitil. AFP

Ofurleikur Manchester City og West Ham á Laugardalsvelli þann 4. ágúst í fyrra var ekki sérlega áhugaverður í augum margra Íslendinga. Það var fjarri því að vera uppselt þegar City tók West Ham í kennslustund með öruggum 3:0-sigri, viku áður en enska úrvalsdeildin hófst.

Spilamennska Manchester City í þeim leik þótti gefa góð fyrirheit fyrir tímabilið. 33 leikjum síðar er liðið orðið enskur meistari, með 28 sigra, þrjú jafntefli og tvo tapleiki. Enn eru fimm leikir eftir af tímabilinu.

Liðið hefur skorað 93 mörk á tímabilinu, flest allra liða, og fengið á sig aðeins 25, fæst allra liða.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri liðsins, er á sínu öðru tímabili með liðið en enskir sparkspekingar héldu sumir hverjir að Pep gæti ekki náð árangri í ensku úrvalsdeildinni vegna leikstílsins sem hann aðhyllist. Eftir að hafa lent í 3. sæti á sínu fyrsta ári dró ekki úr efanum.

Guardiola er fyrsti Spánverjinn til þess að stýra liði til sigurs í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur nú unnið sjö deildartitla af níu tilraunum á sínum ferli. Það verður að teljast ágætis afrek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert