„Benítez er rétti maðurinn fyrir Arsenal“

Rafael Benítez.
Rafael Benítez. AFP

Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður Liverpool, segir að Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Newcastle, sé rétti maðurinn til að setjast í stól knattspyrnustjóra hjá Arsenal og taka við starfi Arsene Wengers.

Benítez hefur náð eftirtektarverðum árangri með Newcastle á leiktíðinni en í gær bar Newcastle sigurorð af Arsenal á St. James Park og er komið upp í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 41 stig en Arsenal er í sjötta sætinu og á enga möguleika á að verða í hópi fjögurra efstu liða í deildinni. Eini möguleiki fyrir Arsenal að ná Meistaradeildarsæti er að vinna Evrópudeildina en andstæðingur liðsins í undanúrslitunum verður Atlético Madrid.

„Benítez er svo sannarlega rétti maðurinn fyrir Arsenal. Ég lék undir stjórn hans í stuttan tíma og hann var algjörlega með hlutina á hreinu. Hann er mjög rólegur knattspyrnustjóri en er mjög áreiðanlegur og góður,“ segir Murphy.

Arsene Wenger hefur stýrt liði Arsenal frá 1996 og undir hans stjórn hefur liðið þrívegis orðið Englandsmeistari, síðast árið 2004, og sjö sinnum bikarmeistari, síðast í fyrra.

mbl.is