City besta liðið að mati Mourinho

Jose Mourinho og Pep Guardiola stjóri City.
Jose Mourinho og Pep Guardiola stjóri City. AFP

Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho gagnrýndi leikmenn sína eftir tapið gegn botnliði WBA á Old Trafford í gær. Með 1:0 sigri WBA á Manchester United varð Manchester City enskur meistari þótt fimm umferðir séu eftir. 

„Allt gerðist svo hægt og það var ekkert flæði í spilinu,“ sagði Mourinho meðal annars við fjölmiðlamenn og sagði leikmenn sína hafa flækt hlutina inn á vellinum en ekki var þó auðvelt að skilja hvað hann átti nákvæmlega við eins og stundum áður.

„Þetta voru slæm viðbrögð eftir sigurinn gegn Manchester City um síðustu helgi. Afleiðingarnar urðu flókin fótbolti. Nokkuð sem einhverjir leikmenn telja vera flottan fótbolta en fyrir mér er flottur fótbolti hraður og einfaldur. Það á ekki að snúast um fleiri snertingar með boltann. Fyrir mér er það ekki gæðafótbolti. Við urðum flókið lið og tókst að láta líkamlega sterkum andstæðingum líða vel á vellinum. Við hefðum átt að nota stigin þrjú gegn City til að koma einbeittir og ákafir til leiks gegn WBA með það fyrir augum að innsigla eitt af fjórum efstu sætunum í deildinni. Mér fannst allt vera flókið í dag,“ sagði Mourinho meðal annars og hann sagði City hafa verið besta liðið í vetur.

„Ég vissi að þeir myndu ná að safna nógu mörgum stigum til að verða meistarar því þeir voru besta liðið. Þegar besta liðið vinnur deildina þá er ekkert drama í gangi.“

mbl.is