Oliver fær stuðning frá lögreglu

Michael Oliver rekur Gianluigi Buffon af velli.
Michael Oliver rekur Gianluigi Buffon af velli. AFP

Enska knattspyrnudómaranum Michael Oliver hefur verið boðinn stuðningur frá lögreglu eftir hótanir sem honum hafa borist á samfélagsmiðlum eftir vítaspyrnudóminn í viðureign Real Madrid og Juventus í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í síðustu viku.

Oliver og Lucy eiginkona hans hafa verið í skotlínunni frá því leiknum lauk en Oliver dæmdi vítaspyrnu á Juventus í uppbótartíma sem Cristiano Ronaldo skoraði úr og skaut þar með Real Madrid áfram í undanúrslitin. Þá rak hann markvörðinn Gianluigi Buffon af velli en Buffon varð æfur út í Oliver þegar hann benti á vítapunktinn og hraunaði svo yfir enska dómarann í viðtölum eftir leikinn.

Símanúmer eiginkonu Olivers var birt á samfélagsmiðlum og henni hafa borist ljót smáskilaboð síðustu dagana.

„Við erum meðvitaðir um ógnandi skilaboð sem hafa verið birt á samfélagsmiðlum. Þessi tegund af hegðun er algjörlega óviðunandi og þeir sem skrifa skilaboðin þurfa að vera meðvitaðir um að þeir gætu verið dæmdir fyrir refsiverð brot,“ er haft eftir lögregluyfirvöldum á Englandi.mbl.is