Gerbreytt lið United sigraði Bournemouth

Chris Smalling (annar frá hægri) fagnar hér marki sínu í ...
Chris Smalling (annar frá hægri) fagnar hér marki sínu í kvöld. AFP

Manchester United vann 2:0-útisigur á Bournemouth í eina leik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

José Mourinho, knattspyrnustjóri United, gerði sjö breytingar frá óvæntum tapleik gegn botnliði West Brom um síðustu helgi. Þær breytingar virtust skila sér og eftir tæplega hálftíma leik var fyrsta markið komið.

Ander Herrera sendi þá boltann á Jesse Lingard sem átti gott hlaup inn fyrir vörn heimamanna. Lingard renndi svo boltanum fyrir markið og þar var varnarmaðurinn Chris Smalling á þvælingi til að skora í sínum þriðja útileik í röð.

Bournemouth átti rispur og var Callum Wilson þeirra hættulegasti maður. Varnarmenn United áttu fullt í fangi með Wilson sem tókst þó ekki að nýta nokkur færi sín og að lokum skoruðu gestirnir annað og síðasta mark leiksins.

Það gerði Romelu Lukaku, eftir að hann kom inn á af varamannabekknum, eftir frábæra sendingu Paul Pogba á 70. mínútu. Man. United er nú með 74 stig í öðru sætinu, fjórum stigum fyrir ofan Liverpool. Manchester-liðið er nú aðeins tveimur stigum frá því að tryggja Meistaradeildarsæti.

Bournemouth er áfram í 11. sætinu og siglir þar lygnan sjó með 38 stig, tíu stigum frá fallsæti.

Bournemouth 0:2 Man. Utd opna loka
90. mín. Leik lokið Sanngjarn sigur United sem styrkir stöðu sína í öðru sætinu.
mbl.is