Mourinho hrósar Pogba í hástert

José Mourinho var sáttur í kvöld.
José Mourinho var sáttur í kvöld. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var ánægður eftir 2:0-útisigur sinna manna á Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

United svaraði þar með fyrir óvænt tap gegn botnliði deildarinnar, West Brom, um síðustu helgi en Portúgalinn var ómyrkur í máli við fjölmiðla eftir þann leik og gagnrýndi leikmenn sína mikið.

Frakkinn Paul Pogba var af mörgum talinn einn þeirra sem Mourinho beindi spjótum sínum að en Pogba var tekinn snemma af velli um helgina. Hann var þó í byrjunarliðinu í kvöld, lagði upp annað marka United og sá Mourinho tilefni til að hrósa miðjumanni sínum í hástert.

„Ég er ekki hrifinn af því að tala um hver er maður leiksins en Paul Pogba spilaði virkilega vel. Gegn Man. City var hann frábær en í dag var hann mjög, mjög góður.“

Pogba var þó ekki sá eini sem fékk gott orð frá stjóranum.

„Allir voru góðir í kvöld, lögðu mikið á sig og tóku ábyrgð á hlutverkum sínum. Við vildum skora og við vildum verjast gegn snöggu og erfiðu liði.“

„Fyrsta markmið er sæti meðal efstu fjögurra, þegar við náum því getum við hugsað um þriðja eða annað sætið,“ sagði Mourinho að endingu en United þarf tvö stig til að vera öruggt um Meistaradeildarsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

Paul Pogba átti góðan leik gegn Bournemouth.
Paul Pogba átti góðan leik gegn Bournemouth. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert