Vetrarfrí í ensku úrvalsdeildinni árið 2020

Nýkrýndur Englandsmeistari, Pep Guardiola. Sá spænski hefur verið ötull talsmaður …
Nýkrýndur Englandsmeistari, Pep Guardiola. Sá spænski hefur verið ötull talsmaður vetrarfrís á Englandi. AFP

Forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hafa í meginatriðum náð samkomulagi um vetrarfrí í deildinni frá og með árinu 2020.

Það hefur lengi verið rætt að innleiða vetrarfrí í enska knattspyrnu til að minnka álagið á leikmönnum deildarinnar en slík hlé tíðkast í flestum stórum deildum Evrópu.

Á Englandi hefur það þó verið þannig að aldrei er jafn mikið álag eins og akkúrat í kringum hátíðarnar og áramótin. Ekki stendur til að breyta því og verður áfram leikið þétt í kringum jól og áramót en aftur á móti stendur til að öllum liðum verði tryggt tveggja vikna hlé í lok janúar og byrjun febrúar.

Gæti hjálpað enska landsliðinu

Ekki verður þó gert algjört hlé á ensku úrvalsdeildinni heldur verður leikjaálagi liðanna hagrætt með þeim hætti að á tveimur leikhelgum verða spilaðir fimm leikir í stað tíu. Öll liðin væru því ekki í fríi á sama tíma og engin helgi verður alveg knattspyrnulaus.

Til að veita þessu nýja fyrirkomulagi brautargengi, verða 16-liða úrslit enska bikarsins leikin í miðri viku og þeir leikir leiknir til þrauta, þ.e. ekki verður gripið til annars leik í kjölfar jafnteflis.

Margir telja þétt leikjaálag á Englandi hafa slæm áhrif á leikmenn úrvalsdeildarinnar þar sem álagið þykir of mikið. Efstu deildir landa á borð við Spán og Þýskaland styðjast við þetta fyrirkomulag og vona sumir að vetrarfrí verði til þess að endurnærðir leikmenn enska landsliðsins fagni betri árangri á alþjóðavettvangi.

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands.
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert