Dýrmætur útisigur Chelsea

Jóhann Berg Guðmundsson horfir á N'Golo Kante skjóta yfir mark …
Jóhann Berg Guðmundsson horfir á N'Golo Kante skjóta yfir mark Burnley í leiknum á Turf Moor í kvöld. AFP

Chelsea eygir enn möguleika á sæti í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu eftir sigur á Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley á útivelli í kvöld, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea er þá komið með 63 stig í fimmta sætinu og er fimm stigum á eftir Tottenham, sem er með 68 stig þegar fjórum umferðum er ólokið. Fjögur efstu liðin komast í Meistaradeildina.

Burnley er áfram með 52 stig í sjöunda sæti deildarinnar. Jóhann Berg lék allan leikinn meö liðinu. Fimm leikja sigurganga Burnley í deildinni er þar með á enda og liðið nær ekki að jafna 50 ára gamalt félagsmet sitt í efstu deild frá 1968 þegar það vann sex leiki í röð.

Chelsea komst yfir á 20. mínútu þegar Victor Moses sendi fyrir mark Burnley frá hægri og boltinn fór af varnarmanni heimaliðsins í netið, 0:1.

Jóhann Berg átti stóran heiður af jöfnunarmarki Burnley á 64. mínútu. Hann átti hörkuskot af rúmlega 20 metra færi, boltinn breytti stefnu af félaga hans Ashley Barnes í vítateignum og sigldi í netið, 1:1.

Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Victor Moses með skoti hægra megin úr vítateignum eftir fyrirgjöf frá vinstri, 1:2, og það urðu lokatölurnar.

Leicester og Southampton skildu jöfn, 0:0, og Southampton er áfram illa statt í fallsæti deildarinnar með 29 stig, fjórum stigum á eftir Swansea sem er með 33 stig í 17. sætinu. Leicester siglir lygnan sjó með 44 stig í 8. sætinu.

Burnley 1:2 Chelsea opna loka
90. mín. Leik lokið Chelsea nær í þrjú dýrmæt stig og stöðvar sigurgöngu Burnley. Leicester og Southampton endar 0:0
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert