„Evrópudeildin er fremst í forgangsröðinni“

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir alveg ljóst hver forgangsröðunin hjá félaginu er þessa dagana. Það er Evrópudeildin sem skiptir öllu máli og segir Wenger að leikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni um helgina sé aðeins undirbúningur fyrir fimmtudaginn þar sem liðið mætir Atlético Madrid í undanúrslitum.

Arsenal mætir West Ham á sunnudag en liðið á ekki lengur raunhæfan möguleika á því að komast í Meistaradeild Evrópu í gegnum úrvalsdeildina. Arsenal hefur 54 stig í 6. sæti og er 14 stigum frá erkifjendum sínum í Tottenham þegar fimm leikir eru eftir. Sigur í Evrópudeildinni er hins vegar farmiði í Meistaradeild Evrópu og þá leið vill Frakkinn fara. 

„Leikurinn um helgina er undirbúningur fyrir fimmtudaginn. Ég hvíldi nokkra leikmenn eftir leikinn í Moskvu og þeir þurfa á leikæfingu að halda. Þetta er ekki beint hvíld heldur undirbúningur,“ sagði Wenger en þá mætir Arsenal spænska liðinu í fyrri leiknum sem fram fer í Lundúnum.

„Evrópudeildin er fremst í forgangsröðinni. Það er ekki eftir miklu að hafa í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Wenger á blaðamannafundi í dag.

Wenger er samningsbundinn Arsenal til loka næstu leiktíðar og langt er síðan Wenger fékk leið á því að svara spurningum um framtíð sína. Hann hefur alltaf staðið við þá samninga sem hann hefur gert við Arsenal og hefur hann ekki miklar áhyggjur af sinni stöðu.

„Persónuleg staða mín hjá félaginu er ekki áhyggjuefni hjá mér á þessari stundu. Áhyggjur mínar á þessari stundu beinast að því hvernig hægt sé að breyta tímabili vonbrigða í tímabil velgengni. Það er það sem skiptir mig máli,“ sagði Arsene Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert