Þetta eru samt stórkostleg úrslit

Jürgen Klopp var ekkert í skýjunum eftir leik en þó …
Jürgen Klopp var ekkert í skýjunum eftir leik en þó ánægður með frábæran sigur. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir leikmenn sína hafa spilað svo gott sem fullkomlega í 80 mínútur af leiknum við Roma í kvöld, í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Liverpool komst í 5:0 en fékk á sig tvö mörk á lokakafla leiksins, það seinna úr vítaspyrnu sem Klopp segir rangan dóm. Staðan í einvíginu er því 5:2 fyrir seinni leik liðanna á Ítalíu eftir rúma viku.

„Þetta var heilt yfir fullkomin frammistaða í 80 mínútur eða svo. Við gerðum ein varnarmistök. Vítið var ekki víti en svona er þetta og staðan er 5:2. Auðvitað værum við ánægðari með 5:0 eða 5:1 en 5:2 er samt stórkostleg úrslit. Við förum og reynum að endurtaka leikinn,“ sagði Klopp við BT Sport.

„Við áttum öll þessi hlaup á bakvið þá, það breytti leiknum alveg og þeir réðu ekki við það. Við skoruðum þessi mörk og hefðum getað skorað fleiri. Það er allt jákvætt en manni líður ekki alveg þannig núna því þeir skoruðu þessi tvö mörk, en á morgun mun ég sjá allt það góða við þennan leik. Þetta er svo sannarlega betra en ég reiknaði með fyrir leikinn en í augnablikinu hugsar maður um þessi svolitlu mistök,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert