„Ég er algjörlega eyðilagður“

Alex Oxlade-Chamberlain liggur eftir í leiknum í gær.
Alex Oxlade-Chamberlain liggur eftir í leiknum í gær. AFP

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld þá eru meiðsli Alex Oxlade-Chamberlain, miðjumanns Liverpool, alvarleg eins og óttast var og mun hann af þeim sökum vera frá keppni næstu mánuði. Það þýðir að draumur hans um að spila með Englandi á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar er úr sögunni.

„Ég er algjörlega eyðilagður að hafa meiðst svona illa á svona mikilvægum tímapunkti á leiktíðinni. Ég er niðurbrotinn að geta ekki spilað meira í Meistaradeildinni með Liverpool, og á HM með Englandi,“ sagði Oxlade-Chamberlain í yfirlýsingu í kvöld eftir að búið var að opinbera eðli meiðslanna.

Hann meiddist í 5:2-sigri Liverpool gegn Roma í gærkvöld og í tilkynningu frá Liverpool í kvöld kom fram að krossband í hné er skaddað og jafnvel slitið. Hann mun því ekki spila næstu mánuði. Í yfirlýsingu sinni minntist Oxlade-Chamberlain þó einnig á stuðningsmann Liverpool sem liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir morðtilraun fyrir leikinn í gær.

„Allar mínar raunir eru ekkert miðað við hvað fjölskylda Liverpool-stuðningsmannsins sem er alvarlega slasaður er að ganga í gegnum. Hugsanir mínar eru hjá honum og hans nánustu,“ sagði Oxlade-Chamberlain.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert